top of page

Heiðarvatnið 16. ágúst 2014

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Aug 17, 2014
  • 2 min read

d

 

Lilja með urriðann sinn. Takið eftir bláu slikjunni á urriðanum við tálknopið aftan við augað á urriðanum.

Ekki finnst mér nú tímabært að vera með eitthvað hausttal um miðjan ágúst. Óneitanlega er það samt svo að ýmsir boðberar haustsins fara að gera vart við sig þegar líður á mánuðinn.

Einn af þessum boðberum í tilveru fjölskyldunnar er gönguferð að vatninu sem ekki má nefna. Þar tínum við aðalbláber í brekkunum sem snúa mót suðvestri ofan við vatnið og veiðum ísaldarurriða í vatninu. Laugardaginn 16. ágúst lögðum við af stað um nónbil upp að vatninu. Eftir um áttatíu mínútna göngu sem öll var á fótinn blasti úfið vatnið við. Úfið, því vindur var sterkur úr norðri. Að þessu sinni ætluðum við að láta berjatínslu bíða sunnudagsins enda spáði þá betur til þessháttar athafna.


Ætluðum að einbeita okkur alfarið að veiðiskapnum. Með í för voru eiginkonan, yngri dóttirin og hundurinn Lappi. Undanfarna tvo áratugi hef ég veitt í vatninu sem ekki má nefna og ætti því að vera farinn að þekkja helstu veiðistaði. Samt er það svo að ég hef aðeins fundið einn stað sem gefur reglulega fisk. Margoft hef ég arkaði hringinn í kringum vatnið. Sett í einstaka fisk hér og þar en aldrei hef ég dregið marga fiska upp af sömu bleiðunni. Þar sem veiðimennirnir í þessari ferð eru misþolinmóðir var ákveðið að hefja veiði á þessum eina þekkta veiðistað.


Í fyrstu gengu köstin hjá dótturinni eitthvað brösuglega þannig að ég lagði frá mér flugustöngina og óð til hennar til að veita smáveigis tilsögn. Þar sem ég er að sýna henni hvernig skuli bera sig að tekur fiskur. Eftir stutta stund liggur 2,5 punda urriði í mosanum við bakkann. Sú stutta tók kastleiðsögninni vel og var farin að kasta ljómandi vel út í vatnið. Ég tek aftur til við fluguköstin. Eftir smá stund sé ég að allt er fast hjá stelpunni svo ég veð til hennar til að losa festuna. Toga og rykki af afli í stöngina en það er togað og rykkt á móti. Það var nefnilega 4,5 punda urriða á hinum endanum.



Fljótlega eftir þetta vildu eiginkonan og dóttirinn hætta veiðum og ganga niður að bæ enda var frekar kalt þarna í norðan rokinu. Ég ákvað hins vegar að halda áfram í von um að finna nýja veiðistaði. Veiddi suðvesturbakkann, fyrir Réttartangann og til baka. Ekki bar það nú neinn árangur fyrr en ég er kominn aftur á upphafsstað. Þar set ég í vænann urriða sem reyndist vera 5,5 pund, 58 cm langur og vel þykkur á búkinn. Stærsti fiskur sem ég hef fengið úr vatninu til þessa.


Nú var sólinn að setjast í vestri með þvílíku sjónarspili. Roði sólarinnar lék um himininn ofan við fjöllin. Það var nánast eins og vestrið logaði. Síðan var gengið í myrkrinu heim. Það var eins og verðurstofan hafði spáð fyrir um. Sunnudagurinn var kjörinn til berjatínslu.





Comments


bottom of page