top of page

Endurbætur á baðherbergjum

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jan 15, 2015
  • 6 min read

Strax og við fluttum í nýja húsið sammæltumst við hjónin um að endurbætur á baðherbergjunum yrði að vera forgangsverk. Engan skyldi undra það því annað var farið að láta verulega á sjá og hitt var notað sem geymsla. Síðustu helgina í september 2014 brettum við upp ermar og hófumst handa.

 

Endurbætur á gömlu húsnæði getur verið heilmikil óvissuferð og niðurrifstíminn þrunginn spennu. Nei, þetta er nú full mikil dramatík en oftar en ekki kemur í ljós við niðurrifin að verkið er stærra en leit út fyrir í upphafi. Það reyndist tilfellið að þessu sinni. Á bak við flísarnar við baðkarið var allt orðið svart af myglusvepp. Þessi ágæti sveppur er til mikils gagns í náttúrunni og í rauninni lífsnauðsynlegur. Í híbýlum manna er hann samt til mikillar óþurftar. Okkar fyrsta hugsun var því að rífa alla timburveggi en sáum síðan að það væri sennilega fullmikið af því góða. Ákváðum síðan að rífa vegginn við svefnherbergisganginn, millivegginn á milli baðherbergjanna og innri klæðninguna á veggnum sem veit að forstofunni.


Svona leit baðherbergið út fyrir framkvæmdir. Á tveimur síðustu myndunum er búið að rífa flísarnar af og sveppagróðurinn blasti við. Þegar baðkarið var farið var allt sótsvart af sveppi á bak við það og hann farinn að læsa sig í veggina einnig þannig að við töldum skynsamlegast að rífa þá einnig.


Þegar búið var að fletta klæðningunni af veggjunum að innanverðu var ráðist á neyslu- og frárennslislagnir. Ég var nokkuð ánægður með mig um kvöldið þegar lagnirnar voru farnar. Vel hafði verið frá gömlu lögnunum gengið og engan veginn fyrirhafnarlaust að fjarlægja þær. Hér dugði ekkert annað en slípirokkur og læti. Daginn eftir aðfarirnar hringir síminn og á númerabirtinum stendur nafn leigjandans í kjallaranum. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Leigjandinn hafði aldrei áður hringt í mig. Erindið hlaut að vera að tilkynna um leka í pípulögninni sem liggur niður í íbúðina hjá honum. Fyrir nokkrum árum var ég við svipaðar aðstæður að gera upp baðherbergi og þurfti að beita ýmsum tilfæringum við að losa gamalt klósett. Um kvöldið tengdi ég nýja klósettið með glans. Þegar fjölskyldan situr við morgunverðarborðið daginn eftir heyrum við að það er bankað. Fyrir utan stendur angistarfull nágrannakonan í kjallaranum og segir farir sínar ekki sléttar. Við höfðum nefnilega skilað morgunverkunum á baðherberginu inn í fataskáp hjá henni. Að þessu sinni var ekkert slíkt upp á teningnum. Nágranninn var einungis að tilkynna að hann væri að fá ljósleiðaratengingu í íbúðina.


Áfram héldu niðurrif. Þegar milliveggirnir voru fallnir þurfti að brjóta upp úr veggjum og gólfi fyrir frárennslis- vatnslögnum. Auðvitað reyndist það hið mesta bras og endaði með því að ég var kominn í gegnum gólfplötuna niður í íbúðina fyrir neðan. Í þessu er ég að brasa sunnudag einn rétt fyrir kvöldmat. Þá er barið á útihurðina með miklu offorsi. Fyrir utan stendur nágrannakona mín sem er ein af fínni frúm bæjarins. Svipurinn á henni sagði mér að henni var ekki skemmt. Sagðist vera búin að fá nóg af þessum framkvæmdum hjá mér. Ég sagðist nú ekki vera undrandi á því en sagðist einmitt hafa stillt vinnutímanum í hóf af einskærri tillitsemi við nágrannana. Ég ráðlagði henni að leita sér upplýsinga um reglur og viðmið um hávaða vegna framkvæmda í heimahúsum. Það hafði ég sjálfur gert og vissi að ég hefði mátt vinna mun fleiri stundir en ég gerði. Frúin snerist þá á hæl og sigldi eins og freigáta á fullu stími fyrir húshornið. Eftir stóð ég í dyrunum og bollalagði með sjálfum mér hvort ég ætti ekki að taka hraustlega á með brotvélinni fram eftir kvöldi. Mundi þá eftir að ég á aðra nágranna sem ástæða er að taka tillit til.


Nú er komið á það stig framkvæmda að byggja skal upp að nýju. Við hjónin ákváðum að fá okkur innfelld LED ljós en það kostaði breytingar á raflögnum á loftinu. Loftaplöturnar voru gataðar hér og þar. Hitaboxum fyrir ljósin komið fyrir, járnrörin fjarlægð og ný raflögn lögð. Síðan var dregið í og loftinu lokað með votrýmisgifsplötum. Hér bý ég vel því svili minn er rafvirki og veitir góð ráð þegar ég stranda í rafmagnsvinnunni. Síðan er faðir minn ansi lunkinn við rafmagnið en hann var duglegur að veita aðstoð í þessum framkvæmdum. Já það er gott að eiga góða að.


Allir milliveggirnir voru rifnir og nýjum veggjum slegið upp. Ákveðið var að halda litlu kompunni sem er hinum megin við vegginn á fyrstu myndinni. Sú kompa var geymsla en það leyndist klósettstammi þar þannig að við ákváðum að setja annað salerni þar og sjáum svo sannarlega ekki eftir því.


Næst var hafist handa við að slá upp grindinni fyrir milliveggina. Auðvitað gekk það ekki þrautalaust fyrir sig því þegar ég er að bora í steinvegginn við hliðina á rafmagnstöflunni verður skyndilega allt svart. Ég hafði slegið allt rafmagn út með því að bora í raflögnina út í bílskúr. Nú þarf að draga í þá lögn aftur. Á endanum voru þó milliveggirnir komnir upp, rafmagn í þeim frágengið og allt spartlað hátt og lágt. Þar sem baðhergin eru svo lítil að þau myndu sennilega flokkast sem sýnishorn af baðherbergjum og svefnherbergisgangurinn þröngur ákvað ég að klæða veggina með spónaplötum en ekki gifsi til að fá almennilega festu. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég klætt veggina með 12 mm spónaplötum og einu gifslagi en nú lét ég spónaplöturnar nægja. Loftið klæddi ég með gifsi.

Flísalögn langt komin.


Nú var komið að því að leggja pípulagnir. Ég var farinn að halda að ég þyrfti að leggja þær sjálfur því það er greinilega nóg að gera hjá iðnaðarmönnum. Á endanum fékk ég Guðmund pípulagningamann til að vinna verkið. Feginn var ég því pípulagnir eru eitt af því sem mér finnst best að fá fagmann í. Guðmundur reyndist vandaður og ábyrgur í vinnu sinni og var mjög umhugað um að hlutirnir væru rétt gerðir. Hann reyndar neitaði að setja upp klósett sem ég hafði keypt fyrir löngu síðan en þar held ég að hann hafi gert mér greiða því sú klósettgerð er víst til endalausra vandræða. Hver vill vera með lekt klósett? Píparinn þurfti smávegis að beita brotvélinni til að koma lögninni fyrir en ekki var það mikið. Um leið og heyrðist í brotvélinni mætti freigátan í næsta húsi. Að þessu sinni lýsti hún því yfir að við værum þeir verstu nágrannar sem nokkur manneskja gæti hugsað sér. Nú þyngdist í mér og ég sagðist ekki ætla mér að ræða við hana á þessum nótum, benti henni á að kynna sér viðmið um hávaða í heimahúsum vegna framkvæmda og koma ekki aftur nema hún gæti sýnt fram á að við værum að ganga of langt. Hún hefur ekki sést síðan. Staðreyndin er einfaldlega sú að þessi viðmið þekki ég mæta vel og veit að við vorum langt innan allra viðmiða. Hefðum í raun getað gengið miklu lengra. Að sjálfsögðu viðurkenni ég að framkvæmdahávaði er þreytandi fyrir nágrannana en það er bara ekki nokkur leið að vinna þessi verk hljóðlaust. Nágrannana hinum megin við mig spurði ég hvortég væri að gera þau brjáluð og svarið sem ég fékk var að það væri alls ekki svo. Þau fengju nefnilega svefnfrið. Svona eru þolmörkin misjöfn. Verst var þetta þó fyrir leigjendurna okkar í kjallaranum en þeir fengu rauðvín og osta um áramótin sem þakklætisvott fyrir þolinmæðina.


Undirbúningur fyrir flísalögn og innréttingar var næsta verk. Fyrst þurfti að steypa í götin í gólfplötunni og síðan fleytti ég síðustu millimetrana. Ég hélt að steypan myndi þétta nóg en svo reyndist ekki þannig að smávegis af flotinu rann í gegn og niður í íbúðina í kjallaranum. Leigjandinn varð eins og gefur að skilja ekki ánægður með mig þar. Á sama tíma kjarnaboraði Litli klettur fyrir mig í gegnum gólfplötuna og síðan fékk ég Blikksmiðjuna Vík til að græja loftræstinguna. Flísalögnina sá ég um sjálfur en bý svo vel að mágur minn er snillingur í flísalögnum og þar fékk ég góð ráð um hvernig skuli bera sig að við þá vinnu. Allt efni til flísalagnanna var keypt í Álfaborg á Þorláksmessu og síðan var djöflast í flísalögn öll jólin.


Unnið í milliveggjum, undirbúningur undir flísalögn og flísalögn.


Innréttingarnar sá trésmiðjan Við og við um en þeir hafa nokkrum sinnum unnið fyrir okkur. Það góða við að skipta við þá er að í stað þess að kaupa tilbúnar einingar er allt er smíðað eftir málum þannig að ef 43 cm skápur passar best þá er 43 cm skápur smíðaður. Guðmundur í Við og við er einnig glúrinn að sjá hvað best hentar. Á litla baðherbergið var reyndar bara skroppið í IKEA og Bauhaus og eitthvað fundið sem passaði svona nokkurn vegin.


Lokahnykkurinn á baðherbergisbrasinu okkar var síðan að setja upp blöndunartækin fyrir sturtuna og klefann, handklæðaofninn og hurðirnar fyrir baðherbergin. Það skal alveg viðurkennast að þótt það sé gaman að standa svona framkvæmdabrasi þá verður maður ansi feginn þegar því lýkur. Nú fækkar sundlaugarferðum okkar því við höfum síðan um miðjan september þurft að treysta á laugarnar því enga höfum við haft baðaðstöðuna.


Verki lokið.

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page