top of page

Delft 2024

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • May 29, 2024
  • 5 min read

Námsferð skólastjórnenda Norðurmiðstöðvar

 

Nú sit ég undir dæmigerðum miðevrópskum kirkjuturni í borginni Delft í Hollandi. Ástæða veru minnar hér er námsferð skólastjórnenda í skólum sem heyra undir Norðurmiðstöð. Hópurinn fékk Erasmus styrk og megin þema ferðarinnar eru leiðir Hollendinga til að kenna nemendum af erlendum uppruna. Þetta er ein af stærri áskorum flestra skóla í Reykjavík í dag og Hollendingar, vegna reynslu sinnar hljóta að hafa einhverju að miðla.

Aðaltorgið í Delft. Til hliðar er Nýja kirkja en hinum megin á torginu er ráðhúsið. Það sést á myndinn. Ofan við bjórinn sést í styttuna af Hugo Grotius sem lést árið 1645.

Það var flogið út á þriðjudeginum 14. júní. Á leiðinni á milli Sciphol flugvallar og Delft sá maður að Hollendingar treysta tölvuert á vindorkunna þannig að þessi risastóru hvítu mannvirki voru alls staðar meðfram hraðbrautinni. Maður sá einnig að Hollendingar eru ennþá að nota gömlu vindmyllurnar sem eru heldur meira fyrir augað. Óneitanlega leitaði hugurinn upp í Norðurárdal og til þeirrar sjónmengunar sem svona ferlíki í Hvammsmúlanum munu valda. Eftir að hafa komið farangrinum fyrir á hótel Hampshire í Delft rölti ég niður í miðbæ. Eftir að hafa áttað mig á umhverfinu settist ég niður á veitingastað á aðaltorginu í bænum.


Delft er um hundrað þúsund manna borg. Miðbærinn er heillandi með sínum síkjum og gömlum byggingum. Hún ber greinileg merki 750 ára sögu sinnar en þekktust er hún sennilega fyrir að vera fæðingarstaður og starfsvettvangur hollenska málarans Johannes Vermeer sem málaði myndina af stúlkunni með perlueyrnalokkana. Síðan eru það einnig bláu keramikmunirnir sem hafa hótelinu.verið unnir í Delft frá því á sautjándu öld.


Á miðvikudagsmorgninum var ekið til Gouda sem er 75.000 manna borg. Þar var hópnum skipt í tvennt. Ég fór í yngri barna skóla sem var sérhæft úrræði fyrir nemendur af erlendum uppruna. Í þeim skóla gátu nemendur verið frá 16 upp í 40 vikur. Lengd tímans fór eftir því hvernig börnunum gekk að ná tökum á nýju tungumáli. Megin áherslurnar í náminu voru á hollensku og hollenska menningu, félagsfærni og stærðfræði. Ég var að vona að Hollendingar í ljósi meiri reynslu væru búnir að þróa skilvirkt kerfi í móttöku og innleiðingu nemenda af erlendum uppruna inn í almenna skóla en svo virðist að þeir séu að glíma við sömu vandamál og Íslendingar. Langir biðlistar eftir sérfræðingum, kennaraskort, fjárhagslegar forsendur ákvarðana frekar en faglegar. Það er nú samt ýmislegt sem við getum lært af þeim. 

Kirkjan í Gouda.
Kirkjan í Gouda.

Seinni partinn fengum við fyrirlestur um hollenskt skólakerfi í kennaraháskóla í Gouda. Skólakerfi þeirra Hollendinga er ólíkt því íslenska. Þeir leggja mikla áherslu á að greina hæfni og getu nemenda með markvissum hætti og stýra þeim inn á ólíkar námsleiðir. Eftir fyrirlesturinn settist hópurinn inn á veitingastað. Úti rigndi stíft. Á endanum gafst ég upp á að bíða af mér rigninguna og rölti inn að kirkjunni Sint

Ráðhúsið í Gouda.
Ráðhúsið í Gouda

Janskrenk. Stærsti hluti hennar var byggður á 16. og 17. öld. Um 1350 var turninn

byggður og grunnur undir kórinn árið 1485. Kirkjan er engin smásmíði. Lengd hennar einir 123 metrar, sú lengsta í Hollandi. Eftir að hafa tekið hring um kirkjuna rölti ég inn á ráðhústorgið. Þar stendur auðvitað ráðhúsið sem var byggt á fimmtándu öld. Heimferðin var síðan hálf klaufaleg því ég tók lestina til Rotterdam og þaðan til Delft. Nema að ég gleymdi að fara út og endaði í Hag. Þaðan tók ég lestina til baka. Sennilega mun mér ekki aftur takast í þessu lífi að heimsækja fjórar borgir á einum degi.

Rotterdam hefur frekar lagt áherslu á arkitektúr. Þetta hús er dæmi um það og hýsir listasafn.

Á fimmtudeginum byrjaði dagurinn á ferð til Rotterdam þar sem hópurinn heimsótti stofnun sem sérhæfir sig í stuðningi við skólanna í málum sem varða nemendur sem þurfa sérstuðning af einhverjum toga. Eftir hádegi var hópnum skipt í þrennt. Ég heimsótti unglingaskóla með nemendur frá 12 til 18 ára. Þar fengum við kynningu á deild innan skólans sem tekur á móti nemendum af erlendum uppruna. Eftir heimsóknina gaf ég mér tíma til að skoða það sem markverðast þykir í Rotterdam. Satt best að segja fannst mér borgin einstaklega lítið áhugaverð. Eflaust er þar eitthvað áhugavert að finna en þess dagpartur dugði mér ekki til að uppgötva það. Rotterdam er gömul borg. Upphaf hennar má rekja til miðrar þrettándu aldar þegar stífla var byggð í ánni Rotte. Þar kemur skýringin á nafninu, Rotterdam. Gömlu húsin sem prýða gamlar borgir eru ekki í miðbænum. Skýringin á því er sú að Þjóðverjar sprengdu miðbæinn í tætlur árið 1940. Gömul hús má þó finna í Delfshafen en þangað komst ég ekki.


Föstudagurinn var að mestu leiti frír dagur. Hann byrjaði þó á fundi þar sem ferðahópurinn gerði upp það sem við höfðum séð og reynt í heimsóknum í skóla og stofnanir. Á fundinum voru lagðar línur með samstarf við að þróa móttöku og kennslu nemenda af erlendum uppruna. Það er ekki vanþörf á því þessi hópur er mjög vaxandi á Íslandi. Aldrei í sögunni hafa fleiri flóttamenn verið á ferð í heiminum og Ísland fer ekki varhluta af því. Að fundi loknum voru allir frjálsir ferða sinna þar til klukkan sex en þá átti að sigla saman á síkjum Delft og borða saman.

Þekktasta verk Vermeers. Það er sama frá hvaða sjónarhorni þú horft er á stúlkuna. Hún virðista alltaf vera að horfa á þig til baka.

Ég var búinn að ákveða að byrja frítímann á að kynna mér helsta stolt Delft. Það er málarinn Johannes Vermeer. Vermeer var einn af helstu málurunum á gullaldartíð málaralistarinnar í Hollandi. Hann fæddist árið 1632 og lést árið 1675. Það liggja ekki nema 34 verk eftir hann sem þykir ekki mikið. Þessi verk eru á söfnum víða um heim. Rétt vestan við Nýju kirkju er safnið Vermeer Centrum en það er helgað þessum merka málara. Það er vel þess virði að heimsækja það hafi maður á annað borð áhuga á list. Á þeim tíma þegar Vermeer var uppi voru það málarar sem skrásettu söguna í myndum því ljósmyndatæknin var ekki kominn til sögunnar. Með því að heimsækja svona safn er maður þar af leiðandi einnig að fræðast um líf fólks á fyrri tímum. Á þessu safni er það alþýðusagan sem er í brennidepli því Vermeer málaði fyrst og fremst hversdagslíf millistéttarinnar og oftast nær voru það konur sem voru viðfangsefnið. Hans þekktasta verk er sennilega Stúlka með perlueyrnarlokka.

Nýja kirkja séð frá ráðhúsinu í Delft.

Eftir heimsóknina á safnið rölti ég yfir í Nýju kirkju. Undarlegt heiti á kirkju hvers byggingu lauk árið 1495. Kirkjan hefur 109 metra háan turn sem er næst hæsti kirkjuturninn í Hollandi. Kirkjan er helst þekkt fyrir að vera greftrunarstaður konunga Hollands. Hinn fyrsti sem fékk að hvíla í kirkjunni var Vilhjálmur þögli sem var ein helsta frelsishetja Hollendinga og lagður í gröf árið 1584.


Síðan var gengið spottakorn yfir í gömlu kirkju. Kirkjan sú er frá 1249 og þar kemur skýringin á nafngift kirkjanna. Gamla kirkja er einna þekktust fyrir gluggalistaverkin. Í Gömlu kirkju rakst ég á gröf Vermeers. Um kvöldið var síðan sigling á síkjunum og kvöldverður á einhverjum matsölustaðnum.


Síðasta morguninn settist ég á bekk undir Nýju kirkju og skrifaði þennan texta. Rölti síðan á markaðinn. Í götunum öðru megin við ráðhústorgið var antikmarkaður en hinum megin var matarmarkaður. Síðan var flogið heim og við Guðrún brenndum beint upp í Brautarlæk.


Ráðhúsið í Delft séð frá Nýju kirkju.

Hjól og sýki. Frekar mikið hollenskt.

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page