Deep River Blues
- Þorkell Daníel Jónsson
- Apr 20, 2019
- 2 min read
Updated: Sep 7, 2022
Höfundur lags og texta óþekktur

Að loknu rigningarárinu 2018 er ég haldinn alvarlegum rigningarblús. Það þarf svo sem engan að undra því það rigndi yfir 260 daga á suðvesturhorni landsins á síðasta ári. Undir lok ársins flæddi síðan inn í kjallarann hjá okkur með tilheyrandi tjóni. Í dag er sumardagurinn fyrsti og fallegt veður en vorið hefur verið blautt. Það er því vel viðeigandi að fyrsta lagið sem ég lærði að spila á gítarinn á nýju ári sé rigningablús.
Textinn í laginu Deep River Blues fjallar um örvæntingu manns vegna flóða í nálægri á í kjölfar rigningatíðar og vandræðanna sem af flóðin ollu. Mér lék forvitni á að vita hvenær lagið var samið og af hvaða hvötum. Ég get ekki sagt að ég hafi fundið óyggjandi upplýsingar um þetta. Fyrst fann ég texta um að kveikjan hafi verið hrikaleg flóð í Missisippi ánni árið 1927. Í þessum flóðum brustu stíflur og áin flæddi yfir 60 þúsund ferkílómetra. Hundruð þúsunda manna misstu heimili sín og yfir 250 manns létust. Delmore bræðurnir tóku lagið upp árið 1933 undir heitinu Big River Blues. Þeir segjast hafa samið það en það eru áhöld um hvort það sé rétt. Það má vel vera að lagið hafi verið samið undir áhrifum frá hamförunum í Missisippiflóðinu. Það er samt vísan í bæinn Muscle Sholes texa lagsins og sá bær stendur við Tennessy ána. Þess vegna þykir mér nú líklegra að Tennessy áin hafi verið kveikjan.
Ég rakst á lagið í desemberútgáfu af tímaritinu Acoustic Guitar frá árinu 2011. Þar er útsetning sem Doc Watson gerði og gaf út árið 1964. Í viðtali sagðist Watson hafa fyrst heyrt lagið í flutningi Delmore bræðra og hrifist af. Hann hafi hins vegar ekki náð að láta lagið hljóma nógu vel með einum gítar. Ekki fyrr en hann uppgötvaði Travis picking þegar hann heyrði Merle spila og þumallin hljóp í sífellu á milli bassanótnanna. Watson sagðist hafa æft þetta í tíu ár og síðan bætt við laglínunni. Eflaust er hann að ýkja þarna. Watson spilar lagið með þumlinum og einum fingri en bendir á að skynsamlegra sé að nota alla fingurna. Hann mælir einnig með því Iað dempa bassastrengina. Ég geri það ekki því ég þyrfti að æfa mig í tíu ár til að það hljómaði sæmilega.
Það má finna fullt af myndböndum á netinu þar sem hinir og þessir gítarleikarar glíma við að spila lagið enda er bráðskemmtilegt að spila það. Einn af þeim er ástralski gítarsnillingurinn Tommy Emmanuel. Hans útgáfa er hér fyrir neðan myndbandið þar sem ég spila Doc Watson útsetningun
Commentaires