top of page

Brautarlækjarannáll 2023

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jan 4, 2023
  • 14 min read

Updated: Nov 2, 2023

Tuttugu gráðu frost 30. desember 2022 - 2. janúar 2023

 

Þriðja árið í röð dvöldum við í Brautarlæk yfir áramótin. Ef Lappi hefði vit myndi hann þakka okkur þá ákvörðun. Í Brautarlæk er nefnilega engum flugeldum skotið á loft. Varmadælan sem við keyptum þarsíðasta sumar hefur heldur betur gert það gott. Í fyrra var til dæmis frekar harður og snjóþungur vetur. Varmadælan malaði samt allan veturinn og hélt húsinu frostfríu. Um þau áramótin var til dæmis tólf gráðu frost en samt þokkalegasti hiti í húsinu.


Þrátt fyrir þessa góðu reynslu vorum við aðeins uggandi nú því frosthörkurnar hafa veri fádæma miklar. Okkur þótti full ástæða til að fara í að minnsta kosti eftirlitsferð. Daginn fyrir gamlársdag lögðum við í hann úr bænum. Áttuðum okkur undir Hafnarfjallinu að laukurinn gleymdist fyrir sunnan. Lauklaus gátum við ekki verið svo við komum við í Borgarnesi. Sýnin til vesturs var mögnuð því sólin var að setjast á sjóinn. Það var stafalogn og átján gráðu frost og það gufaði upp af sjónum sem var eiginlega heitur miðað við lofthitann. Guðrún verslaði laukinn en ég tók myndir.


Áhyggjur okkar reyndust ekki ástæðulausar. Það var tuttugu gráðu frost í framdalnum og skaflinn var á sínum stað í heimtröðinni. Við urðum því að bera föggur okkar í frosti, myrkri og snjó nokkurn spöl að húsinu. Þegar inn var komið var heldur hlýrra þar en utandyra. Kalt var nú samt því innihitinn var við frostmark og greinilega hafði frosið við gólf. Varmadælan réð ekki við þetta óskaplega frost. Við gátum ekki sett vatnið á því það var frosið í lögnum. Ísskápurinn mótmælti þessum kulda og hvorki kældi né frysti. Sennilega óvanur að vera geymdur sjálfur í frysti. Við vorum eiginlega viss um að vatnslagnir hússins væru meira og minna frostsprungnar, að uppþvottavélin væri ónýt og ísskápurinn einnig.


Við fíruðum bæði olíu- og gasofnum í botn og náðum á til þess að gera stuttum tíma að fá þokkalegan hita í húsið. Það verður nú að segjast eins og er að alltaf erum við ljónheppin. Það virtist gera ísskápnum gott þegar hlýnaði og að hann hætti mótmælum sínum. Við prófuðum að setja vatnið á. Vissulega hafði vatnslögnin gefið sig en aðeins á einum stað við eldhúskranann þannig að viðgerð var auðveld. Ekki varð uppþvottavélinni meint af frostinu.


Svona var veðrið að morgni nýársdags.

Það var sæmilegasti snjór í dalnum en ekki svo mikill að við ættum erfitt með að komast sveitaveginn að húsinu. Jafnvel framhjóladrifsbíllinn fór létt með það. Á nýjársdag fór að snjóa. Okkur Kristjáni svila leíst ekki á annað en að færa bílana upp á þjóðveg svo við kæmumst nú örugglega heim. Það var komið niðamyrkur og skyggni ferlegt vegna snjókomunnar. Kristján rauk á undan mér af stað. Hann lendir í því að tveir hrútar skutust í veg fyrir bílinn framan við heimreiðina að Króki. Hvaðan þeir komu vitum við ekki því það er enginn sauðfjárbúskapur lengur í grenndinni. Kristjáni tókst að sveigja fram hjá hrútarskömmunum en við það fór bíllinn að dansa á veginum og endaði út í kanti vinstra megin við Húsadalinn. Þar sat hann fastur þegar ég kom að. Ég var á bíl sem hentaði betur í þessum aðstæðum og ætlaði að krækja fram hjá bíl Kristjáns. Finn þá að bíllinn rennur til og leitar niður í Húsadalinn og hálf festist þar í kantinum. Ekki leyst mér á blikuna um stund en á endanum náðum við að bakka honum upp og smeygja honum framhjá bíl Kristjáns. Á endanum náðum við að koma báðum bílunum upp að þjóðvegi þar sem við geymdum þá um nóttina.


Daginn eftir hélt áfram að snjóa svo við ákváðum að drífa okkur í bæinn rétt eftir hádegi. Sóttum farangur, eiginkonur og hund í húsið á jeppanum. Festum hann reyndar aftur við Húsadalinn en eftir smá bras náðum við að losa hann. Komum við hjá sýslumanni í Borgarnesi til að þinglýsa einum litlum samningi.



 

Púslað af miklum móð 24. - 26. mars 2023

 



Guðrún horfir á tunglið, mars og Venus. Himininn var stórkostlegur þetta kvöld.

Mars skyggir á sólu, Venus skín skært, norðurljósin dansa um himininn frá austri til vesturs. Þannig var staðan kvöldið sem við komum í Brautarlæk. Það var sáralítill snjór en Norðuráin í klakaböndum, svo mjög að það hefði sennilega verið hægt að ganga yfir hana. Við Guðrún gengum í kluldanum meðfram ánni upp að Króksfossi og virtum klakaböndin fyrir okkur. Lappi gerði sér auðvitað enga grein fyrir hættunni sem fólst í að ganga út á ánna. Það hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef hann hefði pompað í gegn. Sem betur fer þá hlýddi hvutti vel þegar við bönnuðum honum að ganga út á ánna því engan höfðum við tauminn.


Okkur er farið að þyrsta í að geta tekið til hendinni en það viðrar ekki enn til útiverka. Jörð er gegnfrosin svo maður hreyfir ekki við nokkrum hlut. Inni við bíða engin verk því sennilega verður næsta verkið þar að rífa húsið. Þess í stað var tíminn nýttur í skriftir og púslað var af miklum móð.


Það mætti halda að Ruslalækurinn væri myndarlegur lækur en svo er venjulega ekki.

Keli framan við Króksfoss. Fosslækurinn var ansi fallegur í klakaböndum en sólin var í suðri ofan við hann svo ekki var hægt að mynda hann.

 

Trjáklippingar, kvistlingaræktun og Eurovision 12. – 14. maí 2023

 


Vegna andláts Sigurbjargar þann sextánda apríl og þess sem þurfti að sinna í kjölfar þess hefur ekki gefist tími til að fara í Brautarlæk. Við sáum samt glugga til þess núna um helgina og létum slag standa þrátt fyrir að veðurspáin væri ekki upp á marga fiska. Okkur langaði að sinna trjánum eitthvað áður sumargróandinn kemst á fullt.


Það var ágætis veður fyrri part laugardagsins. Átta til tíu gráður og lítill vindur. Um fjögurleitið fór að rigna og það rigndi grimmt eftir það. Við klipptum neðan af nokkrum grenitrjám, bárum 25 kíló af blákorni á minni trén í landinu og 7 kíló af trjákorni á sum stærri trjánna. Við klipptum tuttugu græðlinga af öspunum niður við veg og ætlum að gera eina tilraun með að klára að setja aspir meðfram veginum. Við gerðum tilraun með það fyrir nokkrum árum. Sú tilraun mistókst því gærðlingarnir fóru sennilega of seint í mold.

Rigningin truflaði okkur hjónin ekki neitt því úrslitakvöld Eurovision var framundan og við ætluðum að horfa á það. Rauðvín og steik. Síðan fór Austurríki á sviðið og byrjaði að flytja fyrsta lagið og þá fór rafmagnið. Það koma fljótlega aftur og þá var Portúgal að flytja sitt laga. Aftur fór rafmagnið og nú kom það ekki aftur fyrr en eftir einn og hálfan klukkutíma. Við sátum því við kertaljós, lásum og réðum krossgátu. Síðan kom rafmagnið aftur og aftur datt það út. Að þessu sinni í stuttan tíma og við gátum klárað að horfa á söngvakeppnina. Frá því í mars hefur rafmagnið farið sex sinnum og við erum aðeins farin að undrast tíðnina.


 

Köld og stíf suðvestanátt 10. - 11. júní 2023

 

Við gerðum ekki nokkurn hlut að gagni þessa helgina. Héngum bara inni og svekktum okkur á sumarleysinu sunnan heiða. Lilja og Arnar komu við og gistu eina nótt. Þau eru á leið á

 

Getur verið að sumarið sé komið? 16. - 18. júní 2023

 

Þúfan neðan við grenitrén er það sem eftir er af reykkofanum hans Halla. Fjárhús að falli komin. Í fyrsta sinn í sumar upplifum við að það komi sumar í þessu landi. Sólin lætur reyndar ekki sjá sig en núna er hlýtt og notalegt. Þegar við komum á föstudeginum var átján gráðu hiti og kjörið að eta kvöldmatinn úti á palli. Mikið óskaplega var þetta notalegt og kærkomið eftir allar rigningarnar undanfarinn mánuð. Litum eftir laxi undir brúnni en enginn var laxinn þar. Í staðinn var toppandarsteggur á veiðum í hylnum. Flott að sjá hann synda um í hylnum í leit að æti.


Við Guðrún röltum að bæjarhúsunum í Króki, yfir að fjárhúsunum og móana heim í Brautarlæk. Það eru orðnir rúmir fjórir áratugir síðan fjárhúsin voru síðast nýtt þannig að þau eru eiginlega við það að falla. Miðjan á fjárhúsunum er fallin og reykkofinn hans Halla er núna einungis þúfa í landslaginu.


Til vinstri má sjá fjárhúsin sem eru að falli komin. Miðjan horfin. Hægra megin má sjá það sem enn er sýnilegt af reykkofanum sem er einungis þústin neðan við grenitréð.


Nú fer að nálgast sá tími að við förum að hefjast handa við framkvæmdirnar þannig að við Guðrún bollalögðum aðeins um undirbúninginn og hvernig við ættum að setja upp aðstöðuna á meðan á framkvæmdum stendur. Mældum fyrir efniskaupum til að geta einangrað geymsluskúrinn. Upphaflega átti geymsluskúrinn bara að vera köld geymsla en við þurfum að hafaeinhvern íverustað á meðan við byggjum nýjan Brautarlæk.


 

Undirbúningur fyrir nýjan Brautarlæk 23. - 25. júní 2023

 

Við erum komin á fullt með undirbúning að nýjum Brautarlæk. Reyndar þykir okkur allt gerast hægar en við hefðum viljað en satt best að segja þá kemur okkur það ekki á óvart. Svona verkefni hafa tilhneigingu til að dragast Á þessum tíma ætluðum við helst að vera búin að semja við gröfumann um að grafa fyrir grunn en því er ekki að heilsa enn. Erum þó búin að fá teikningar að nýju húsi samþykktar hjá Byggingafulltrúa í Borgarbyggð. Til að fá endanlegt samþykki þurfum við að redda byggingastjóra og meisturum að mismunandi verkþáttum. Eins og staðan er núna vantar okkur aðeins húsasmíðameistara til að slá þessu upp fyrir okkur. Erum komin með byggingastjóra, múrarameistara, pípulagningarmeistara og rafvirkjameistara. Einungis hönnunarteikningarnar eru tilbúnar en við bíðum enn eftir teikningum verkfræðingsins.


Tókum eina reyniviðarhríslu og tvö birki sem hafa verið að vaxa upp í garðinum hjá okkur með upp í dal og gróðursettum ofan við húsið. Síðan var unnið í að einangra geymsluskúrinn. Tilgangurinn með því er að hafa einhvern íverustað þegar við erum búin að rífa gamla húsið.

 

Steinull, varmadæla og Selvatn 6. - 15. júlí 2023

 

Frá fimmtudegi til miðvikudags var veðrið ótrúlega gott en síðan snerist vindáttin yfir í norðan og þá kólnaði svo um munaði. Hitinn var sextán til tuttugu gráður og steig í þrjátíu og tvær í sólinni þegar best var. Þetta gerist ekki oft á þessu kalda landi okkar og þá er um að gera að njóta þess á meðan stendur. Við héldum áfram að einangra geymsluskúrinn. Þegar ullin var komin í loft og veggi skruppum við í Selvatn til að veiða. Þá hafði vindátt snúið sér í norðanátt. Í Selvatni náðist engin fiskur en bæði ég og Guðrún settum í fisk sem slapp. Mér tókst að brjóta fluguveiðistöngina.

Á þessum tíma sumarsins ætluðum við að vera komin af stað með að slá upp fyrir grunni nýja hússins en staðan er nú aldeilis ekki sú. Undir niðri áttum við svo sem ekki von á því. Í ljósi reynslu annarra þá tefjast svona verk nánast undantekningarlaust. Það er kannski bara ágætt því maður vanmetur alltaf þann undirbúning sem inna þarf að hendi. Við færðum varamdæluna af sólpallinum yfir á húsið og rifum þann hluta pallsins lendir yfir nýja grunninum. Mokuðum síðan ljósleiðarann upp svo sá sem tekur að sér að grafa fyrir grunninum slíti hann ekki. Sá gröftur var meiri vinna en við reiknuðum með því ljósleiðarinn lá ansi djúpt stóran hluta af leiðinni.


 

Slegið upp fyrir húsgrunni. 20. júlí - 7. ágúst 2023

 

Fyrsti áfangi nýs Brautarlækjar er grunnurinn undir húsið. Loksins er sá áfangi kominn af stað. Við töluðum auðvitað við Jóa frá Klettstíu í von um að hann gæti fundið tíma til að grafa fyrir grunninum og flytja möl í púðann sem þarf að byggja undir grunninn. Við vorum viðbúin að þurfa að bíða því allir virðast vera verkefnum hlaðnir og allt hefur tilhneigingu til að dragast. Okkur var til dæmis farið að lengja eftir teikningum af grunninum og lögnum í honum. Þær teikningar þurfum við áður en við byrjum.


Á föstudagsmorgninum þann 21. júlí um tíuleitið opna ég póstinn minn þar sem ég sit í eldhúsinu og nýt morgunkaffibollans. Mér til ómældrar gleði hafði verkfræðingurinn sent okkur nauðsynlegar teikningar af grunninum með þeim orðum að nú gætum við byrjað. Okkar var síðan litið út um eldhúsgluggann og sjáum við ekki nema Jóa á gröfunni koma upp heimreiðina. Síðan var byrjað að grafa og það var eins og við héldum. Stutt var niður á fast. Aðeins var þunnt moldarlag ofan á og síðan grjóthart malarlag. Þetta voru kjöraðstæður. Á þriðjudag var púðinn síðan tilbúinn og ekkert annað að gera en að hefja efnissöfnun til að fara að smíða grunninn. Púðinn endaði í því að vera um 150 cm hár þar sem hann er þykkastur.



Á meðan á biðinni stóð nýttum við tímann til að smíða undirstöður undir rúmlega sex fermetra geymsluskúr sem okkur hafði áskotnast. Reyndar er sá skúr bara tilbúinn Costco skúr sem þolir lítinn vind og örugglega ekki veðrin þarna í framdalnum. Við ákváðum þess vegna að gera undirstöðurnar öflugar þannig að þegar Costco skúrinn er fokinn um koll þá smíðum við bara vindþolinn skúr úr afgangstimbrinu sem fellur til þegar við rífum gamla Brautarlæk.

Skúrnum var valinn staður í skjólsælu rjóðri við lækinn.

Fljótlegt reyndist að reisa skúrinn enda leiðbeiningar skýrar. Við eigum örugglega eftir að lenda í vanda með að geyma alls konar byggingaefni. Lausnin á þeim vanda fékkst þegar mágkona mín rakst á auglýsingu þar sem verið var að selja gamlan tuttugu feta gám. Við keyptum hann og fengum flutning á honum til okkar í sveitina. Flutningurinn kostaði nánast jafn mikið og gámurinn. Já, það er dýrt að vera fjarri þéttbýlinu. Við ákváðum að reyna að nýta okkur gámaflutninginn og kaupa dálítið af efni til að flytja í gámnum.


Þar sem við höfum ekki smíðað grunn áður og erum ekki þjálfuð í að lesa úr verkteikningum þá kostaði það okkur nokkur heilabrot að finna út hvernig þetta ætti að vera. Það átti sérstaklega við um járnabindinguna. Á endanum með hjálp byggingastjórans fékkst réttur skilningur og við hófumst handa við uppsláttinn. Svo heppilega vildi til að á meðan við vorum að ljúka við að koma undirstöðunni undir grunninn í fullkomið lóð og ganga frá neðstu spítunum kom póstur frá verkfræðingnum um breytingu á grunninum. Það hefði verið slæmt að fá þessar breytingar sendar eftir að búið væri að slá upp. Smíðin gekk vel og svo heppilega vildi til að það var þurrt og stillt veður allan tíman. Aðstæður voru allar hinar bestu. Smíði grunnsins var lokið þann fimmta ágúst fyrir utan smávegis frágang á snittteinum. Næst er að panta steypudag fyrir sökkulveggina.



 

Steypustress 16. - 20. ágúst 2023

 

Fyrsta áfanga smíði nýs Brautarlækjar lauk um helgina þegar sökkulveggirnir á viðbótinni við gamla grunninn voru steyptir. Klukkan 14:45 mættu dælubíll og steypubíll á svæðið og steypstressið helltist yfir. Sá sem ók dælubílnum hafði áhyggjur af undirlaginu þar sem bíllinn stóð því bíllinn er ekki nema 35 tonn og óskemmtilegt hefði verið við að eiga ef hann sykki ofan í jarðveginn. Steypubíllinn sennilega um 33 tonn. Það verð ég að viðurkenna að ég var hálf stressaður vegna þess þetta er minn fyrsti sökkuluppsláttur og ekki alveg með það á hreinu hve álagið er mikið og hvort stífingar okkar hafi verið nógu öflugar. Steypa er nefnilega þung. Rúmmeterinn um tvö og hálft tonn. Dælustjóranum leist a.m.k. vel á uppsláttinn. Prófessjónal work hann sagði á góðri íslensku. Það gerðist nú samt að veggurinn gliðnaði aðeins á tveimur hornum en sem betur fer var hægt að redda því. Klukkan 15.50 var steypudælingu lokið og þá tók fíniseringavinnan við. Samtals voru þetta 5,5 rúmmetrar af steypu sem fór í sökkulveggina. Um kvöldmatarleitið var verkinu lokið.



Daginn eftir var hafist handa við að slá utan af grunninum. Um um kvöldmatarleitið var því verki lokið og einnig náðum við að klára að hreinsa allt timbur og ganga frá því. Steypuvinnan gekk eiginlega vonum framar. Við tókum því heldur rólegar á laugardeginum. Tæmdum smíðaskúrinn og gerðum klárt fyrir vinnu við að setja rakavarnarlag á veggi og loft.

Hvammskirkja í Norðurárdal í Borgarfirði.

Seinni partinn gerðum við okkur ferð inn í Sanddal. Það er mjög lítið í ánni þannig að við ókum meðfram Sveinatungumúlanum inn dalinn. Ókum síðan yfir ána og ókum meðfram Hvammsmúlanum út dalinn. Við gerðum okkur einnig ferð niður að Hvammi og litum á leiðin í garðinum. Ósköp eru þau fá leiðin sem eru merkt. Væntanlega er garðurinn samt fullur af ómissandi fólki. Kirkjan lítur vel út en íbúðarhúsið í Hvammi sýnist okkur vera á hraðri leið með að verða óíbúðarhæft. Það grotnar hratt niður.


Lengst til vinstri á myndinni stóð bærinn Galtarhöfði sem fór í eyði árið 1905. Dalurinn heitir Mjóidalur og Mjóadalsá rennur eftir honum. Gilið sem er neðst í dalnum kallast Illagil.Undir hlíðinni hægra megin á myndinni stóð bærinn Sanddalstunga sem fór í eyði 1974.

 

Rakavarnarplast í smíðaskúrinn 25. - 27. ágúst 2023

 

Maður lifandi hvað það var kominn tími á rigningu. Norðuráin er eiginlega ekki orðin neitt og fréttir hafa borist af dauðum löxum vegna súrefnisskorts. Veiðin er auðvitað fáránlega lítil. Áin er komin í 730 laxa og aðeins 21 lax veiddist alla síðustu viku á fimmtán stangir. Núna ættum við eiginlega að vera að tína ber en þau eru engin. Maí var kaldur og allan mánuðinn rigndi. Júní tók við og var kaldur framan af og allan mánuðinn rigndi. Svo snerust veðrakerfin. Það stytti upp og hefur ekki rignt síðan.

Þangað til laugardaginn 26. ágúst. þá kom loksins regn sem einhvað hefur að segja. Annars hefur tíðarfarið hentað okkur vel því á meðan við vorum í greftri og smíðavinnu var þurrt. Núna erum við að vinna í að setja upp rakavarnarplastið í smíðaskúrinn og ætlum að klæða hann með panilnum sem núna klæðir gamla húsið.


 

Fyrsta haustlægðin 31. ágúst - 3. september 2023

 

Ég lengdi helgina og tók mér frí á föstudeginum. Aukadaginn nýttum við til að færa rafmagnsmælinn af húsinu og yfir á staur sem við settum niður við húshornið. Við vissum að von væri á fyrstu haustlægðinni um kvöldið og að á laugardeginum yrði ekkert veður til útivinnu. Það stóð heima því þegar við lögðumst til hvílu um miðnættið var kominn suðaustan strekkingsvindur og rigning.

Það var með hálfgerðum trega að við byrjuðum að rífa gamla Brautarlækjarhúsið. Þótt hefðum viljað nýta húsið eitthvað í vetur þá verðum við bara að sætta okkur við að vorið mun tæplega duga okkur til að ljúka öllum þeim verkum sem þarf að ljúka áður en við getum farið að ganga frá sökkli til að steypa plötuna. Þess vegna er ekkert annað að gera en að byrja að rífa. Á laugardeginum hófum við Guðrún þá vinnu með því að rífa panelinn af innvegggjum. Panelinn ætlum við að endurnýta að einhverju leiti með því að klæða smíðaskúrinn sem nú er búið að einangra.

 

Byrjuð að rífa 8. - 10. og 14. - 17. september 2023

 

Við erum komin á fullt í að rífa klæðninguna innan úr gamla húsinu og stutt er í að það verði óíveruhæft. Okkur er því farið að liggja á að geta flutt út í smíðaskúrinn. Við grófum skurð á laugardeginum frá inntaksmælinum yfir í smíðaskúrinn og lögðum rafmagnslögn yfir. Erum búin að klæða skúrinn að innan. Nú þurfum við rafvirkja í heimsókn til að færa rafmagnið yfir í skúrinn og tryggja vinnurafmagn fyrir áframhaldandi vinnu.



 

Áfram er rifið. Helgarnar 22. -24. sept. og 28. sept. - 1. okt.

 

Helgina 22. – 24. september var markmiðið að ljúka við að rífa klæðninguna að innanverðu og fjarlægja einangrunina. Það markmið náðist. Grunur okkar um myglu og fúa staðfestist því fúi var undir öllum gluggum sem snúa mót slagveðursáttunum, suðvestan og suðaustan. Fúinn var jafnvel meiri en okkur grunaði því það var orðið fúið í gegn undir þremur gluggum.


Við urðum fegin þegar við komum í Brautarlæk á fimmtudeginum 28. september því að rafvirkinn hafði litið við í vikunni og fært rafmagnstöfluna yfir í smíðaskúrinn. Það var komið að því að rífa bárujárnið utan af skúrnum og tjörupappann og þar með var hann ekki lengur regn- og vindheldur. Á sunnudeginum var allt járn komið af og pappinn einnig. Það lítur út fyrir að ekki muni frjósa í vikunni þannig að við aftengdum ekki vatnið en létum til öryggis ofn í húsið við vatnslögnina.



 

Húsið er fallið 5. - 8. október 2023

 


Í þokkalegu haustveðri á föstudeginum náðum við að hreinsa þakpappann af þakinu og þakborðin. Náðum einnig að naglhreinsa borðin. Þegar leið á daginn tók að kólna og undir kvöld var himinn orðinn stjörnubjartur. Um nóttina féll hitinn niður í mínús átta gráður.


Í byrjun laugardags var ansi andkalt en vindur var stilltur og sólin skein. Smá saman hækkaði hitinn og undir kvöld byrjaði að rigna. Þennan daginn náðum við að slá borðaklæðninguna af veggjunum og lukum við að naglhreinsa.


Allan sunnudaginn var haugarigning og það bætti í vindinn eftir því sem leið á daginn. Þegar vinnudegi lauk um þrjúleitið vorum við orðnir hundblautir og því fegnastir að geta lagt í hann heim. Takmarkinu var náð því við náðum að fella húsgrindina þannig að nú stendur einungis gólfið eftir. Heilmikil naglhreinsun bíður næstu helgar.

 

Naglhreinsað af miklum móð 12. - 15. október 2023

 

Það lítur ekki oft vel út með veðurspána á haustin á þessu landi. Lægðirnar sigla í röðum upp að landinu. Það átti við núna því vindkviður á Kjalanesinu voru upp undir 38 m/s á fimmtudeginum og við á leið upp í dal og við með kerru í afturdragi. Aðalverkefnið þessa helgina var naglhreinsun og ruslaferðir. Veðrið var reyndar mjög til friðs á föstudag og laugardag. Frost og smávegis snjókoma á föstudeginum og hið sama var uppi á teningnum á laugardeginum. Reyndar hlýnaði eftir því sem leið á daginn. Ágætis vinnuveður þannig lagað. Á sunnudeginum versnaði í því. Haugarigning svo við entumst ekki lengi til vinnu.

 

Fimm dagar í vinnu 26. - 30. október 2023

 

Allt benti til þess að við myndum nánast klára vinnuna við rifin á Brautarlæk. Ég hafði fimm daga mögulega til vinnu og bæði Guðrún og Kristján fengu svigrúm hjá vinnuveitendum sínum til að vera hér í dalnum í stað þess að mæta til vinnu fyrir sunnan og það leit vel út með veðrið.


Alla dagana var unnið frá sólarupprás til sólseturs og takmarkið náðist. Gólfið og gólfbitar voru rifnir og naglhreinsaðir. Samtals fórum við fjórar ferðir með timbur í endurvinnslustöðina í Borgarnesi. Við rifum sólpallinn einnig þannig að nú standa stöplarnir einir eftir. Það var engin leið að eiga við þá vegna frostsins sem nú er að taka öll völd í dalnum.


Á hverju kvöldi skreyttu tungl og stjörnur himininn og það hreyfði varla vind allan tímann. Núna er þessum áfanga framkvæmdanna lokið og bíðum við nú vorsins. Þegar snjóa leysir og frost fer úr jörðu munum við steypa plötuna en áður en að því kemur þarf heilmikil jarðvegsvinna og pípulagnavinna að fara fram.




 








Commenti


bottom of page