top of page

Bett í London, janúar 2020

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jan 28, 2020
  • 3 min read


London Eye í kvöldljósunum.

Fyrir nákvæmlega fimmtán árum fór ég ásamt þremur vinnufélögum á Bett sýninguna í London. Bett sýningin snýst um hug- og vélbúnað fyrir nám og kennslu. Þarna getur maður á einum stað séð allt það nýjasta og mér þótti kominn tími til að kíkja á sýninguna aftur.

 

Á föstudagseftirmiðdegi að loknu þrammi á milli sýningarbása í tvo daga í Excel sýningarhöllinni settist ég niður með kaffibolla á Jerusalem Costa Coffee einhvers staðar í miðborg Lundúna. Dró þar upp snjáða stílabók og penna og hugðist gera upp það sem ég sá. Að sjálfsögðu hefur margt breyst á þessum fimmtán árum síðan ég fór síðast á þessa sýningu. Núna þótti mér mikil áhersla vera á stærri lausnir til skráninga og utanumhald um ýmislegt sem varðaði nám, kennslu og skipulag. Lausnir eins og skráningu á námsmati, utanumhald um foreldrasamskipti, utanumhald um rafrænt námsumhverfi nemenda o.s.frv. Fyrir kennsluna sá ég mest af búnaði til að búa til sýndarveruleika og búnaði til forritunar. Í tækjabúnaði bar mest á snertiskjám og chromebókum.



Ferðina var skipulögð af Origo sem bauð í drykk á einhverjum pöbbnum í Lundúnum.

Ég verð að gera þá játningu að þar sem ég þrammaði á milli bása velti ég fyrir mér fyrir hvern ég væri að kaupa ef það dytti í mig að kaupa yfirhöfuð eitthvað. Það hefur sýnt sig að það er mjög erfitt að fá kennarana til að nýta sér tæknibúnað af einhverju viti. Þar eru Smart töflurnar sem við erum með í skólanum skýrt dæmi. Ég hef efasemdir um að bæði forritunarbúnaður og sýndarveruleikagleraugu myndu þjóna einhverjum skynsamlegum kennslufræðilegum tilgangi. Ég var eiginlega langt frá því að vera hrifinn.


Laugardagurinn var frjáls dagur og daginn tók ég snemma. Rölti á lestarstöðina við Great Portland Stræti og fór með lestinni yfir á Edgware götu hvar ég skipti yfir á gula línu til að komast á South Kensington stöðina. Þar í grennd eru nokkur áhugaverð söfn. Söfn eins og Náttúruvísindasafnið, Viktoria og Albert safnið og Vísindasafnið. Ég byrjaði á því að koma við í Royal Albert Hall og freistaði þess að kaupa leiðsögn um þetta sögufræga tónlistarhús. Varð því miður frá að hverfa. Húsið var ekki til sýnis þann daginn vegna sýningar hjá Cirque Soleil. Ég settist því inn á kaffihúsið í tónlistarhúsinu og hvíldi lúna fætur um stund. Ég rak nefið bæði inn í Imperial Colege of Education og Viktoríu og Albert safnið en dvaldi stutt á báðum stöðum. Skoðaði náttúruvísindasfanið. Þar dvaldi ég mun lengur og hélt síðan yfir á Westminister til að skoða Churchill War Rooms.


Náttúruvísindasafnið er í þessari fallegu byggingu. Ég var þarna rétt fyrir opnun. Það myndaðist gríðarleg röð við safnið. Þegar inn var komið var vissulega margt fólk en það var samt alveg hægt að njóta þess að skoða.


Royal Albert Hall er tónlistarhús sem mig langar virkilega að skoða. Því miður auðnaðist mér ekki að skoða það í þetta sinn en það er ágætt að eiga eitthvað eftir að skoða þegar borgin verður heimsótt næst.

Churchill var sérstakur maður, sérlundaður og orðheppinn. Eftir hann liggja mörg gullkornin.

Churchill War Rooms er safn sem sýnir aðstöðuna sem Bretarnir útbjuggu í stríðinu. Aðstaðan var neðanjarðar og þarna ætluðu þeir að stýra aðgerðum Breta öruggir þótt þýskum sprengjum rigndi yfir Lundúnir. Það var nú reyndar svo að þeir voru ekkert öruggir því neðanjarðarbyrgið var ekki sprengjuhelt. Bretarnir voru heppnir því engin bomba lenti á birginu. Safnið er tvískipt. Annars vegar röltir maður á milli herbergja og fær upplýsingar um hlutverk hvers herbergis fyrir sig og ýmsa fróðleiksmola um lífið þarna niðri. Hins vegar getur maður fræðst um aðal manninn, sjálfan Churchill en hann var merkur kall og að ýmsu leiti skemmtileg fígúra. Hann var orðsins maður. Einhverju sinni sagði einhver stjórnmálamaðurin við hann að hann myndi frekar styðja djöfulinn sjálfan en Churchill. Churchill svaraði: ,,En ef hann verður ekki í framboði. Get ég þá treyst á stuðning þinn?“ Þar sem ég sat við einn skjáinn á safninu og hló að ýmsum gullkornum Churchill hringdi síminn. Það var Margrét systir að segja mér að Hulda frænka lægi banaleguna og að mamma sæti yfir henni. Ég hefði örugglega dvalið mun lengur á safninu ef ég hefði ekki verið svona fjandi illa fyrirkallaður vegna kvefs.


Hér sjáum við fundarherbergið í aðgerðaraðstöðu Bretanna.

Eftir að hafa skoðað kjallarann ákvað ég að finna breskt apótek og athuga hvort þar fengist eitthvað sem gæti létt eitthvað á kvefhremmingum mínum. Viti menn, í Bretlandi töflur sem heita Sudafed og eftir um það bil hálftíma léttir á öllu og mér líður eins og ég sé fær í flestan sjó. Hér heima er einungis boðið upp á nefúða sem léttir á í smá stund en þurrkar upp nefið í leiðinni.

Ég var því ágætlega stemmdur til að rölta um svæðið ofan við Trafalgartorg. Ég naut þess mjög að fylgjast með mannlífinu. Hér og þar sátu tónlistamenn og fluttu tónlist sína. Flestir þeirra vora bara nokkuð góðir. Í Soho hverfinu var búið að skreyta göturnar í tilefni af því að ár rottunnar er að byrja samkvæmt kínversku tímatali. Mannfjöldinn var gríðarlegur. Ég hélt ekki heim á hótel fyrr en klukkan ellefu um kvöldið.


Þessir tveir sátu og spiluðu rétt ofan við Trafalgartorg. Annar á stálstrengjagítar en hinn á klassískan.

Soho hverfið var skreytt í tilefni af kínversku áramótunum.

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page