top of page

Berlín

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Nov 14, 2022
  • 8 min read

Updated: Dec 27, 2022

28. september - 4. október 2022

 


Berlín er stórborg á evrópskan mælikvarða. Hún er fimmta stærsta borg Evrópu með rúmlega þrjár og hálfa milljón íbúa. Borgin á sér yfir sjöhundruð ára sögu þannig að fyrir þann sem hefur áhuga á liðinni tíð er þessi borg afskaplega áhugaverð að heimsækja. Við Guðrún ákváðum að nýta hluta af sumarfríinu sem við eigum inni og heimsækja borgina. Guðrún hefur áður komið til Berlínar en þetta var mín fyrsta heimsókn. Vissulega eru nokkrar glæsilegar byggingar í Berlín en það er ekki endilega svo að þær séu gamlar. Ástæðan er útreiðin sem borgin fékk í seinni heimstyrjöldinni því yfir sjötíu prósent hennar var sprengd í loftárásum vorið 1945.


Við flugum út á miðvikudagsmorgni, lentum á Brandenburgarflugvellinum um eittleitið og tókum S9 lestina frá Willy Brant brautarstöðinni yfir á Friedrichstrasse stöðina. Gengum upp á götu og hinum megin við hana var Eurostar hótelið hvar við áttum gistingu næstu sex næturnar. Þetta gat ekki verið þægilegra? Að sjálfsögðu stóðu leigubílstjórarnir fyrir utan flugstöðina og reyndu að veiða okkur inn í bílana. Ferðin inn í bæinn kostar sennilega um 50 evrur en lestarfarið kostaði 7 evrur fyrir okkur bæði. Fínasti sparnaður þar.


Olympiastadium

Fyrir aftan okkur er stúkan fyrir merkilega fólkið. Þar stóð Hitler árið 1936 beljandi yfir mannfjöldan eins og hans var von og vísa.

Fyrsta daginn röltum við bara um næsta nágrenni hótelsins en daginn þar á eftir gerðum við okkur ferð á Ólympíuleikvanginn og keyptum okkur leiðsögn um hann. Upphaflega var reiðvöllur á þessu svæði en fyrsta útgáfa íþróttamannvirkja var reist á svæðinu fyrir Ólympíuleikana sem fyrirhugaðir voru árið 1916. Það fór nú svo að engir leikar urðu það árið vegna fyrri heimstyrjaldarinnar. Árið 1931 fékk Berlín að halda elleftu Ólympíuleikana og nasistarnir sem komust til valda árið 1933 ákváðu að nýta sér leikana í áróðursskyni. Þeir létu byggja leikvanginn sem stendur þarna í dag. Leikvangurinn rúmaði hvorki meira né minna en 110.000 áhorfendur. Nasistarnir vildu sýna mátt sinn og megin. Í dag er búið að endurbæta leikvanginn í takt við nútíma kröfur. Hann rúmar nú tæplega 75 þúsund áhorfendur. Völlurinn er heimavöllur knattspyrnuliðsins Herthu Berlin. Hertha Berlín leigir leikvanginn fyrir heimaleiki sína sem er þeim til vandræða. Til stendur að byggja heimaleikvang fyrir liðið á næstunni. Völlurinn er einnig nýttur í alls kyns stærri viðburði eins og tónleikahald. Síðast spilaði Rammstein á vellinum.


Hjólatúr

Sigurgyðjan trónir ofan á Sigurúlunni tæpa 67 metra upp í loftið. Sigursúlan var áður fyrir framan þinghúsið en nasistarnir færðu hana að Tiregarten þar sem hún stendur í dag.

Við fréttum af því heima á Íslandi að það væri hægt að fá íslenska leiðsögn um borgina með Berlínunum. Við létum slag standa og pöntuðum hjólatúr og leiðsögn á föstudeginum. Hjólin leigðum við á hótelinu en á flestum hótelum er hægt að leigja hjól. Hjólatúrinn átti að byrja við Neptúnusagosbrunninn við Rauða ráðhúsið. Þar fundum við leiðsögumanninn og hópinn sem var eiginlega ekki hópur. Það voru nefnilega bara við og annað par. Síðan hjóluðum við að helstu kennileitum borgarinnar. Hjólatúrinn endaði síðan í bjórgarðinum þar sem við fengum okkur að sjálfsögðu bjór og pizzu. Það reyndist mun þægilegra að hjóla um Berlín en við áttum von á. Maður þarf bara að gæta þess að setja dekkin ekki ofan í sporbrautirnar sem sporvagnarnir ganga eftir. Umferðin var ekkert vandamál og okkur fannst hún satt best að segja ekkert sérstaklega mikil. Við höfum séð það mun verra í öðrum stórborgum.


Fyrir framan Brandenburgarhliðið á leið heim á hótel eftir hjólatúrinn.

Sennilega er Brandenburgarhliðið þekktasta kennileiti Berlínarborgar. Um það bil hundrað árum fyrir byggingu hliðsins var Berlín umlukin virkismúr og einungis nokkur hlið veittu aðgang að bænum. Á þeim tíma er Berlín bær frekar en borg. Brandenburgarhliðið var ekki eitt af þessum borgarhliðum. Í kringum 1730 var leiðinum inn í bæinn síðan fjölgað enda Berlín á leiðinni að verða borg. Þá urðu hliðin átján og gengdu þau því hlutverki að vera tollahlið. Eitt þeirra var Brandenburgarhliðið. Hliðið dregur nafn sitt af borginni Brandenburg an der Havel en hliðið markaði upphaf leiðarinnar frá Berlín til þeirrar borgar. Á árunum 1788 – 1791 stendur Freiedrich Wilhelm II síðan fyrir byggingu hliðsins eins og við þekkjum það í dag með Victoríu sigurgyðjuna á toppnum.


Aðalbrautarstöðin

Gamla stöðvarhúsið var rifið 2002 þrátt fyrir að það hafi verið friðað og þessi nýja stöð byggð í staðin.

Okkur Guðrúnu þótti aðalbrautarstöðin í Berlín tilkomumikil. Ekki var það arkítektúrinn sem heillaði okkur enda stöðin gríðarstórt nýtískulegt glerhýsi. Stöðin var opnuð árið 2006 og það var eiginlega stærð hennar sem hreif okkur. Við Íslendingar eigum enga sambærilega samgöngumiðstöð. Berlin – Hauptbahnhof var byggð á árunum 2002 – 2006 á svæði þar sem áður var samgöngumiðstöð sem hét Lehrter Stadtbahnhof.


Lehrter Stadtbahnhof var opnuð árið 1882 og þjónaði fyrst samgöngum til og frá borginni. Í kringum árið 1930 er hún einnig farin að þjóna sem samgöngumiðstöð fyrir samgöngur innan borgarinnar. Þegar borginni var skipt í austur og vestur dró mikið úr vægi hennar því næsta stöð var Friedrichstrasse stöðin sem var í austur Berlín. Þegar múrinn var byggður dró enn úr vægi stöðvarinnar. Þegar múrinn síðan fellur eykst mikilvægi stöðvarinnar að nýju.


Sjónvarpsturninn

Turninn séður ofan af dómkirkjunni í Berlín. Krossinn á glerhringnum sést ef rýnt er í myndina. Rauða ráðhúsið sést fyrir miðri mynd.

Fernsehturm eða sjónvarpsturninn er eitt af kennileitum Berlínar enda er hann fjórða hæsta mannvirki í Evrópu, heilir 368 metrar. Hægt er að fara upp í turninn og njóta stórkostlegs útsýnis yfir Berlín. Ekki væri vitlaust að panta sér borð á veitingastaðnum sem er efst í turninum og snúast hring eftir hring og njóta bæði útsýnis og veitinga. Við hjónin gerðum hvorugt. Þegar sólin skín á turninn varpast skuggarnir þannig á bogadreginn glerhringinn að það er eins og það myndist kross á honum. Þetta segja Berlínarbúar að sé hefnd páfans í Róm fyrir þá meðferð sem kristindómurinn fékk austan við járntjaldið.


Dómkirkjan

Loftárásir bandamanna í seinni heimstyrjöldinni fóru illa með kirkjuna og lauk endurbótum ekki fyrr en árið 1993.

Það er engin þýsk borg sem ekki skartar veglegri kirkju. Dómkirkjan í Berlín er staðsett á safnaeyjunni í miðri Berlín. Þarna hefur staðið kirkja frá því að Friðrik Járntönn lét byggja kirkju tengda höllinni í Berlín árið 1451. Kirkjan sem stendur þarna í dag var vígð árið 1905. Hún er gríðarmikið mannvirki og var hugsuð sem sú lúterska kirkja sem gæti verið mótvægi við Péturskirkjuna í Róm. Þegar inn kemur er það hvolfþakið sem vekur mesta athygli og myndirnar sem eru málaðar á það. Maður áttar sig ekki á því að hver mynd er yfir nítíu fermetrar að stærð enda er kirkjan 116 metra há. Við Guðrún lögðum það á okkur að klöngrast stigana upp á hvolfþakið til að njóta útsýnisins yfir borgina. Þótt púlsinn hafi tekið ágætis kipp við þetta stigabrölt þá var það þess virði. Undir kirkjunni er grafhvelfing sem vert er að skoða en við fengum ekki að fara þangað niður vegna einhverra endurbóta sem var verið að gera þar.


Stríðsminjar og minnisvarðar

Byrgið lætur ekki mikið yfir sér en það er vel þess virði fyrir söguáhugamenn að verja tveimur til þremur klukkustundum í því.

Það er ekki hægt annað en að leiða hugann að hildarleik seinni heimstyrjaldarinnar þegar Berlín er heimsótt. Okkur þótti gott að sjá að Þjóðverjarnir eru ekki að fela þá sorglegu sögu og þeir virðast leggja áherslu á þá atburði sem eru víti til varnaðar frekar en stríðssöguna sjálfa. Þeir til dæmis kjósa að sýna ekki byrgið þar sem Hitler átti sína síðustu daga. Þar er bara hallærislegt bílastæði. Með þessu koma þeir í veg fyrir að nasistar nútímans geri staðinn að heilögum stað til pílagrímsferða. Þess í stað sýna þeir sögu Hitlers í öðru minniháttar byrgi sem lætur ekki mikið yfir sér en gera meira úr minnisvarða um helförina.



Minnisvarðinn eru 2711 misstórir kassar í fullkomlega beinum röðum.

Minnisvarðinn um helförina tekur um nítjánþúsund fermetra af verðmætu landi í miðri Berlín. Þetta hefur alveg vakið deilur í Berlín en þarna stendur minnisvarðinn og er áhrifamikill. Hann var byggður árið 1999 eftir forskrift bandarísks arkitekts Peter Eisemann. Hvað má lesa úr hönnuninni er hvers og eins því hönnuðurinn sjálfur hefur aldrei látið uppi hvað hann var að hugsa.




Reichstag og Rauða ráðhúsið

Það er mikið svæði fyrir framan þinghúsið. Áður var Sigursúlan á miðju túninu en Nasistunum fannst hún þvælast fyrir þegar þeir voru að messa yfir lýðnum.

Við komum tvisvar að þinghúsinu í Berlín. Í fyrra skiptið í hjólatúrnum með Berlínunum og í seinna skiptið síðasta dag ferðarinnar. Þinghúsið er gríðarmikil bygging nálægt Spree ánni með Tiergarten til vesturs og Brandenburgarhliðið til suðurs. Byggingin var tekin í notkun árið 1894 og var höfuðstöðvar keisaraveldisins frá þeim tíma þar til Weimar lýðveldið tók við. Húsið var byggt í endurreisnarstíl og er býsna mikilfenglegt. Árið 1933 varð mikill eldsvoði í byggingunni og hleypti sá atburður af stað ferli sem endaði með því að Hitler tók sér alræðisvald í Þýskalandi. Þinghúsið fór illa í sprengjuregni bandamanna í seinni heimstyrjöldinni en eftir endurbætur og sameiningu Austur og Vestur Þýskalands var það aftur notað sem þinghús. Núna fundar neðri deild alþingis þeirra Þjóðverja í húsinu.


Við Guðrún létum okkur nægja að dást að húsinu að utanverðu. Ef við hefðum verið forsjál hefðum við getað pantað aðgang að húsinu fyrirfram og það hefðum við örugglega átt að gera því það hefði ekki kostað okkur neitt. Ef við hefðum gert það hefðum við væntanlega getað séð vel yfir borgina úr gríðarmiklum glerkúpli sem byggður var 1999.


Rauða ráðhúsið og Neptúnusarbrunnurinn. Ráðhúsið varð aftur ráðhús sameinaðrar Berlínar árið 1991.

Við Alexanderplatz er önnur bygging frá síðari hluta nítjándu aldar (1869). Rauða ráðhúsið er líkt og þinghúsið byggt í stíl endurreisnarinnar og ekkert frekar en þinghúsið slapp ráðhúsið við sprengjur seinni heimstyrjaldarinnar. Við römbuðum inn á Alexandertorgið fyrsta daginn okkar í Berlín og síðan aftur þegar við hittum leiðsögumanninn fyrir hjólatúrinn og í þriðja sinn á lokadegi dvalarinnar. Á milli ráðhússins og kirkju heilagrar Maríu er Nebtúnusarbrunnurinn sem var byggður árið 1891 og var víst gjöf fólksins til Prússakeisara. Keisarinn hlýtur að hafa verið vinsæll finnst fólkið fékk þessa snjöllu hugmynd. Ætli það hafi samt ekki verið svo í raun að keisarinn fyrirskipaði að fólkið gæfi honum þennan brunn. Okkur fannst dálítið sérkennilegt að þarna inni í miðju landi sé byggður brunnur helgaður sjávarguðinum. Stytturnar í kringum guðinn eiga að tákna fljótin fjögur sem runnu um ríki Prússa, Saxelfur (Elba), Rín, Odra og Visla.


Berlínarmúrinn

Múrinn var 5 metra hár og 45 km langur. Í rauninni var hann tveir veggir með um það bil 150 metra á milli sín. Svæðið á milli veggjanna var kallað dauða svæðið.

Múrinn var 5 metra hár og 45 km langur. Í rauninni var hann tveir veggir með um það bil 150 metra á milli sín. Svæðið á milli veggjanna var kallað dauða svæðið. Það verður nú að viðurkennast að saga þessarar merku borgar vekur mann til umhugsunar um hversu brottgeng mannleg tilvera er. Þetta á sérstaklega um þá sögu Berlínar sem er nær okkur í tíma. Valdabröltið í Þýskalandi í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar skapaði jarðveg fyrir uppgang nasista og allar þær hörmungar sem fylgdu þeim uppgangi þyngja hugann. Ekki eru síðan lausnirnar sem Evrópu var boðið upp á eftir fall nasistanna til að bæta lundina. Berlínarmúrinn, eða þær minjar sem eru til af honum, er til vitnis um þau ósköp. Það er beinlínis ógnvekjandi að setja þessa sögu í samhengi við það sem er í gangi í Evrópu núna. Líkindin eru óhugnanlega mikil. Maður spyr sig hvort sagan sé að fara að endurtaka sig. Aftur og aftur fóru þessar hugleiðingar á flug þegar við skoðuðum það helsta sem markvert er í þessari ágætu borg.


Guðrún við minnisvarða um þá sem létust þegar þeir reynda að flýja yfir múrinn.

Einn af þeim stöðum sem settu hugann á flug var Berlínarmúrinn. Ferð okkar Guðrúnar austur fyrir járntjald í ágúst 1989 rifjaðist upp fyrir okkur þar sem við hlustuðum á frásögn leiðsögumannsins af múrnum og tilurð hans við Checkpoint Charlie. Okkur leið dálítið eins og vofum úr fjarlægri fortíð þegar við sögðum unga fólkinu sem var með okkur í hjólatúrnum af upplifun okkar af lífinu fyrir austan járntjald áður en múrinn féll. Sem hann gerði í október sama ár og við vorum þar á ferð. Þetta var svona: ,,Krakkar mínir, krakkar mínir. Þegar ég á sjónum var.“ upplifun. Við áttum síðan eftir að heimsækja tvo aðra staði þar sem tilurð múrsins var minnst. Á öðrum staðnum var langur uppistandandi bútur múrnum skreyttur með listaverkum eftir listamenn víðs vegar um heiminn. Á hinum staðnum var minnisvarði um múrinn og þá 141 Austur Þjóðverja sem létust þegar þeir reyndu að flýja yfir múrinn til Vestur Berlínar. Sá síðasti lést 8. mars 1989 þegar hann féll úr loftbelg sem hann ætlaði að fljúga á yfir múrinn í. Á tímabilinu 1961 – 1988 reyndu yfir hundrað þúsund manns að flýja yfir til Vestur Þýskalands og yfir 600 þeirra voru drepnir af landamæravörðum Austur Þýskalands.


Út að borða

Hér fengum við okkur snitsel.

Eitt af því sem fylgir svona ferðalögum er seta á veitingastöðum og kaffihúsum. Í Berlínarferðinni okkar varð óvenju lítið um veitingahúsaferðir. Einhvern vegin æxluðust hlutirnir bara þannig. Fyrsta kvöldið vorum við einfaldlega of sein til og hvert veitingahúsið af öðru sneri okkur við í dyrunum því allt var fullt. Við enduðum því í kebablúgu Doner Kebab við Friedrichstrasse brautarstöðina og fengum okkur kebab með allt of miklu chilly. Næsta dag höfðum við gengið svo mikið að við hreinlega nentum ekki annað en að slíta í okkur skyndibita. Þriðja kvöldið fórum við á þokkalegan góðan veitingastað og fengum okkur dýra steik. Daginn þar á eftir fékk ég einhverja magakveisu og var ekki í ástandi til að vera úti á meðal manna. Næsti dagur þar á eftir fór í að jafna sig svo Indverjinn í kebablúgunni reddaði okkur aftur. Það var síðan ekki fyrr en næst síðasta kvöldið sem við settumst aftur inn á þokkalegan veitingastað. Að sjálfsögðu fengum við okkur snitsel.


Myndasýning



Recent Posts

See All

Comments


bottom of page