top of page

Baulárvallarvatn í júní 2005

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jun 30, 2005
  • 1 min read

Og vötnin á Vatnaleið.

 

Vötnin sem ég er að vísa til eru Baulárvallarvatn, Hraunsfjarðarvatn, Selvallavatn og Hraunsfjörður. Eftir lagningu vegarins yfir Vatnaleið varð Baulárvallarvatn og suðvesturhluti Hraunsfjarðarvatns vel aðgengileg til veiða. Eldfjallið Vatnafell aðskilur Baulárvallarvatn og Hraunsfjarðarvatn og Horn aðskilur Hraunsfjarðarvatn og Selvallavatn. Suðvestan við Hraunsfjarðar- og Baulárvallarvatn eru Tröllatindar og Hafrafell er austan við vötnin. Í jarðsögulegu ljósi eru vötnin til þess að gera ung. Þau mynduðust í eldgosi fyrir um það bil 120 þúsund árum. Bæði Hraunsfjarðarvatn og Baulárvallarvatn eru ægidjúp en eitthvað er mesta dýpt þeirra á reiki. Það helgast af stíflugleði mannanna. Sennilega er Baulárvallarvatn um kringum 47 metra djúpt og Hraunsfjarðarvatn hvorki meira né minna en 87 metra djúpt.


Í Baulárvallarvatn renna fjölmargir lækir sem væntanlega eru hrygningastöðvar urriðans sem í vatninu er. Árnar sem renna í vatnið frá Vatnfelli réttsælis kringum vatnið heita Rauðsteinalækur, , Draugagilsá, Baulá, Moldagilsá og Vatnalækur. Til suðurs rennur Straumfjarðará úr vatninu væntanlega hefur útfallið verið stærsta hryggningastöð urriðans áður en það var stíflað en eftir stíflugerðina eru aðstæður til hryggningar urriðanum lítt hagstæðar.

Síminn hringdi og þótti mér nú það vera helgispjöll að sinna erindum þarna úti í guðsgrænni náttúrunni.

Ég og félagi minn í Veiðifélaginu Foss prófuðum Baulárvallarvatn rétt fyrir mánaðamótin júní – júlí árið 2005. Röltum inn með Vatnafellinu að Vatnaá og hófum veiðar þar. Þar fengum við nokkra smátitti. Á bakaleiðinni veiddum við í fjörunni niður af Vatnafellinu. Köstuðum á móti stífri sunnanáttinni og þarna fengum við einhverja urriða sem voru heldur stærri. Þeir náðu samt ekki þeirri stærð sem sögð er vera meðalþyngd fiska í vatninu en urriðinn í Baulárvallarvatni ku vera af stærri gerðinni af vatnafisk að vera.


Með fullan poka af smábleikju við Vatnaá.

Af bakkanum þar sem mölin er hentum við Örn á móti sunnanáttinni og settum í nokkra urriða. Þeir voru aðeins stærri en silungarnir við Vatnaá.



Commentaires


bottom of page