top of page

Bakkaá og Gríshólsá

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Oct 2, 2010
  • 5 min read

2003 - 2010

 



Staðhættir

Árnar Bakkaá og Gríshólsá eru í Helgafellssveit á Snæfellsnesi og renna til sjávar skammt vestan við afleggjarann niður að Stykkishólmi. Þær eiga upptök sín í fjallgarðinum austan við Kerlingaskarð. Bakkaá er lengra í vestur og tekur aðallega til sín vatn af Kerlingafjalli, Grímsfjalli og Lambahnúkum. Ofan til er farvegur Bakkaárinnar stöðugur og bakkar hennar grasi grónir. Neðri hluti Bakkaár og Gríshólsár er síbreytilegur frá ári til árs. Að öllu jöfnu er árnar lítil vatnsföll en í vatnavöxtum geta þær orðið gríðarlega vatnsmikilar. Helstu örnefni á ofanverðu vatnasvæði Bakkaár eru Beinadalur sem gengur niður úr Kerlingafjalli norðanverðu og Hrafnagil. Austanvert við Kerlingafjall eru síðan Grímsá sem sameinast Bakkaá nokkuð ofan við Gömlu brú, Grímsskarð, Bringufell, Dýjadalur og ekki má gleyma Gríshólnum sem bærinn Gríshóll er kenndur við.


Gríshólsáin rennur Hraundalinn sem hefur Lambahnúkinn og Írafell til sitt hvorrar handar. Lambahnúkinn að vestanverðu og Írafell að austanverðu. Gríshólsárinn dregur vatn sitt frá þessum fjöllum og að sjálfsögðu einnig þekktasta fjallinu á þessum slóðum, Drápuhlíðarfjalli. Drápuhlíðarfjallið er ólíkt öðrum fjöllum á þessum slóðum. Litirnir í því eru miklu bjartari. Ekki er það nú vegna þess að gull sé í fjallinu eins og menn héldu í eina tíð heldur vegna þess að efri hluti þess er úr líparíti. Fjallið er ríkt fágætra steina eins og jaspis, glerhöllum og ýmissa annara steina (Tómas Einarsson og Helgi Magnússon, 1989). Neðan við Stekkjarfoss í Gríshólsá má sjá á framburði árinnar hvaðan grjótið kemur. Fróðlegt er að bera saman grjótið í Stekkjarfossi og grjótið neðan við hylinn í Bakkafossi í Bakkaá.


Bakkaá og Gríshólsá sækja að töluverðum hluta vatn sitt í lindir sem gerir það að verkum að þær eru ekki eins viðkvæmar fyrir langvinnum þurrkum eins og ef þær væru hefðbundnar dragár. Fyrir bragðið halda þær vatni sínu nokkuð vel en eru kaldar ofan til. Árnar sameinast skammt ofan við félagsheimilið Skjöld og heita Bakkaá þann kílómeter sem þær renna saman til sjávar.

Ós Bakkaár er í Hofstaðavog í Breiðafirði. Þar er full ástæða til að fara varlega vegna þess að þegar fellur að, sérstaklega þegar stórstreymt er flæðir sjórinn um allt þannig að ármynnið verður eins og hafsjór á að líta. Hvergi á landinu er meiri munur á flóði og fjöru.


Sjóbleikjan

Á vorin hefur verið hægt að ganga að sjóbleikjunni vísri í ós ánna þar sem hún er að aðlaga sig árvatninu áður en hún gengur upp árnar á hrygningastöðvarnar. Bleikjan gekk til sjávar að lokinni hrygningu haustið áður. Í sjónum étur hún marflær, burstorma, agnir og rækjur. Á vorin sullast bleikjan um hríð inn og út með sjávarfjöllum áður en hún gengur upp í árnar og étur sandorma, marflær og flugur þegar þær gefast. Þegar bleikjan ákveður að ganga upp árnar til hrygningar verður rykmý aðalfæða hennar og þegar líður á sumarið bætast langhalafló, skötuormur, árfætlur, efuskel, vatnabobbar, vorflugur, ánar, hornsíli, seiði og hrogn á matseðilinn (Pálmi Gunnarsson. 2003), allt eftir því hvað árnar bjóða upp á.


Ríki sjóbleikjunnar er ofarlega í Gríshólsánni og þar eru hrygningastöðvar hennar. Þar sem sjóbleikjan er harðgerari fiskur en bæði lax og sjóbirtingur fá seiðin frið þarna fram á Hraundalnum. Áin er það köld svona ofarlega að laxa- og sjóbirtingsseiði þrífast ekki eins vel og harðger bleikjuseiðin.


Því miður virðast vera blikur á lofti hvað sjóbleikjuna varðar. Henni virðist vera að fækka hröðum skrefum en það hefur verið þróunin undanfarin ár í flestum sjóbleikjuám landsins. Því miður eru ekki til skráningar á sjóbleikjuveiðinni í ánum nema frá árinu 2003 þegar Veiðfélagið Foss tók árnar á leigu. Þess vegna ekki er hægt að gera samanburð til að meta hvort hér sé um tímabundna sveiflu í veiðinni að ræða eða viðvarandi ástand. Ástæður þess að sjóbleikjunni fækkar eru ekki kunnar en ýmsar skýringar hafa verið settar fram af lærðum og leikum. Algengasta skýringin er að hlýnun sjávar og hlýnun ánna hafi breytt skilyrðum sjóbleikjunni í óhag á báðum búsvæðum. Öðru hvoru berast fréttir af því að sjávarfiskar hafi annað hvort horfið af hefðbundnum miðum eða nýjar tegundir finnist á slóðum sem þær hafa ekki fundist á fyrr. Dæmi um þetta er dulafullt hvarf loðnunnar, skortur á síli í sjónum og makríll sem er farinn að veiðast víða í sjónum í kringum landið. Sjóbleikjan í Hofstaðavog hefur fengið samkeppni af nýbúa við Íslandsstrendur. Flundra sem er flatfiskur ekki ósvipaður kola hefur gert sig heimakomin í ósnum og sækir í svipað fæði og bleikjan (Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson. 2009) er í bullandi samkeppni við laxfiskanaog hefur fundist upp eftir öllum síkjum en þangað hefur sjóbleikjan einnig sótt.



Sjóbirtingurinn

Þegar líða fer á ágústmánuð fer sjóbirtingurinn að verða meira áberandi í ánum. Þá hefur hann sett stefnuna á hrygningastöðvarnar sem eru sennilega í neðri hluta ánna. Sjóbirtingurinn er að ganga í árnar á tímabilinu ágúst og fram í nóvember. Hrygningin fer fram í október eða í byrjun nóvember. Hrygningafiskurinn dvelur síðan í ánum yfir veturinn en gengur til sjávar snemma vors. Hann mætir að nýju í árnar um haustið til að hrygna eftir að hafa dvalið nokkra mánuði í sjó. Hið sama gera seiðin. Ganga til sjávar í maí eða byrjun júní og koma aftur í árnar um haustið og þykjast þá vera fullgildir sjóbirtingar.


Seiði sjóbirtingsins ganga ekki til sjávar fyrr en þau hafa náð nægum þroska til að takast á við lífsbaráttuna þar. Það getur tekið tvö til fimm ár og fer eftir uppeldisskilyrðunum í ánum. Sumarið 2008 var gerð rannsókn á seiðaþéttleikanum í Bakkaá og Gríshólsá. Niðurstöðurnar sýna að sjóbirtingurinn er ráðandi í ánum. Á þeim fimm stöðum sem seiðaþéttleikinn var kannaður var magn sjóbirtingsseiða nokkuð á fjórum þeirra. Eini staðurinn þar sem sjóbirtingsseiði fundust ekki var fyrir ofan Bakkafoss (Sigurður Már Einarsson. 2008). Þrátt fyrir að birtingur hafi fundist fyrir ofan fossinn þá sýnir þetta ótvírætt að Bakkafoss er mikil gönguhindrun og nánast stöðvar göngu silungsins.


Laxinn

Hér á árum árum gáfu Bakkaá og Gríshólsá nokkuð af laxi. Reyndar er ekki til mikið af skráningum á veiðinni hér áður fyrr utan árin 1974 – 1986. Þessi ár voru árnar í útleigu og seiðum sleppt. Árnar voru að gefa 30- 70 laxa á sumri en mest hafa þær gefið 125 laxa sumarið 78. Í lok níunda áratugarins fer veiðin að dala. Hugsanlega er ástæðan sú að seiðasleppingar hætta á þessum tíma og árnar bera hreinlega ekki náttúrulegan stofn. Ef til vill má kenna hafbeitastöðinni í Hraunsfirði um.


Þegar Veiðifélagið Foss tók við ánum árið 2003 var sáralítil laxveiði í ánum. Það sumar veiddust aðeins fimm laxar. Smám saman er veiðin að nálgast veiði fyrri ára og sumarið 2008 veiddust 44 laxar. Langmest af þeim laxi sem veiðist er smálax en einn og einn stærri slæðist á land. Sá stærsti á leigutíma Veiðifélagsins Foss til þessa er um það bil 11 pund. Sá stærsti sem heyrst hefur af að hafi komið upp úr ánum er 17 pund.


Þótt laxveiðin í ánum sé farin að nálgast þá veiði sem áður var þarf það ekki að þýða að toppnum sé náð og ekki sé hægt að fá meira af laxi upp úr ánum. Niðurstöður rannsóknar á seiðabúskap ánna benda til þess að þær geti borið meiri lax en þær gera nú. Laxaseiði fundust á öllum athugunarsvæðum, jafnvel á svæði fimm sem er fyrir ofan Bakkafoss en hann er ótvírætt gönguhindrun fyrir laxinn. Sum búsvæðin eru kjörnar uppeldisstöðvar fyrir seiðin. Dæmi um slíkt svæði er Bakkaáin fyrir neðan Bakkafoss. Laxaseiðin eru hins vegar í mikilli baráttu við urriðaseiðin um búsvæðin og laxaseiðin verða gjarnan undir í þeirri baráttu. Til að auka laxagengd í árnar þarf náttúruleg hrygning laxins að styrkjast. (Sigurður Már Einarsson. 2008).


Heimildir

Eríkur St. Eiríksson. 2003. Stangveiðhandbókin. Reykjavík. Skerpla.

Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson. 2009. Flundra í íslenskum vatnakerfum. Reykjavík. Sportveiðiblaðið. (26) 96-97.

Pálmi Gunnarsson. 2003. Sjóbleikja. Reykjavík. Sportveiðiblaðið. (171) 24-28.

Sigurður Már Einarsson. 2008. Fiskirannsóknir í Bakkaá og Gríshólsá 2008 VMST/09001. Veiðimálastofnun.

Tómas Einarsson og Helgi Magnússon (ritstj.). 1989. Íslandshandbókin. Reykjavík. Örn og Örlygur.






Comments


bottom of page