Hallelujah
- Þorkell Daníel Jónsson
- Dec 4, 2021
- 3 min read
Updated: Sep 7, 2022
Lag og texti: Leonard Cohen

Lagið Hallelujah er langþekktasta lag Leonards Cohen. Það kom fyrst út árið 1984 á plötu Choens, Various Positions. Lagið vakti litla athygli og það var meira að segja svo að útgáfufyrirtækið sem gaf verk Cohens út þótti svo lítið til þess koma að það vildi ekki gefa það út. Lagið fór nú samt á plötuna en vakti litla athygli. Einhverjir veittu því þó eftirtekt og meðal þeirra var Bob Dylan. Hann flutti lagið öðru hvoru á tónleikum hjá sér og í fyrsta sinn árið 1988. John Cale í Velvet Underground gerði fyrstu ábreiðuna af laginu árið 1991 eftir að hafa heyrt lagið á tónleikum hjá Cohen. Sú ábreiða vakti heldur meiri athygli en útgáfa Cohens. Jeff Buckley heyrði síðan ábreiðu Coles og gerði sína eigin ábreiðu. Sú ábreiða fór plötu hans, Grace sem varð því miður hans fyrsta og eina. Þessi útgáfa átti eftir að koma laginu á flug. Það gerðist þó ekki strax. Það var ekki fyrr en eftir 2001, eftir að það var notað í teiknimyndinni Shrek, að lagið fékk almennilega vængi Síðan þá hefur ótrúlegur fjöldi listamanna gert ábreiður af laginu. Vitað er af yfir 300 ábreiðum af laginu og fjölmargir þekktir listamenn hafa spreytt sig á því. Útgáfa Buckleys er sú útgáfa sem er þekktust.
Leonard Cohen var menntaður bókmenntafræðingur, skáld og rithöfundur í grunninn. Hann fór í tónlistina til að eiga fyrir salti í grautinn. Það lifir enginn á því að vera ljóðskáld. Það skal því engan undra að hann hafi tekið sér góðan tíma við textasmíðina. Hann hefur að sjálfsögðu viljað að textar hans hefðu einhverja dýpt og þýðingu. Sagan segir að hann hafi í spjalli við Bob Dylan á kaffihúsi í París logið að það hafi tekið hann tvö ár að semja Hallelujah. Honum hefur sennilega þótt einum of að viðurkenna hið sanna sem var fimm ár. Dylan hins vegar gortaði af því að það hafi tekið hann fimmtán mínútur að semja lagið I to I. Önnur saga segir að Cohen hafi setið á hótelherbergi á Royalton hótelinu í New York bankandi höfðinu í örvæntingu í gólfið þegar hann var að semja textann. Hann samdi víst uppköst að einum áttatíu erindum áður en endanleg útkoma fékkst. Reyndar fékkst engin endanleg útkoma því hann notaði ekki alltaf sömu erindin þegar hann flutti lagið á tónleikum.
Í mörgum textum Choens eru vísanir í biblíuna og í Hallelujah eru þær nokkrar. Það má samt ekki skilja textann sem svo að hann sé trúartexti því það er alls ekki tilgangurinn með vísununum. Texti lagsins samkvæmt mínum skilningi hverfist fyrst og fremst um ást, missi og hvernig ástin getur breyst og fölnað með tímanum. Trúarvísanirnar eru stórsnjöll leið til að varpa ljósi á þær flóknu og oft erfiðu mannlegu tilfinningar sem vakna þegar ástin er annars vegar. Hebreska orðið hallelujah er upphafið trúarlegt orð sem merkir lof sé drottni en í texta lagsins er það ekki endilega meiningin. Cohen sagði sjálfur í einhverju viðtalinu að það mætti leggja ýmsa aðra meiningu í orðið.
Ég kynntist verkum Cohens fyrir mörgum árum þegar ég var að bögglast við að læra plokkaðan undirleik við lagið Suzanne sem er annað lag sem margir listamenn hafa flutt. Fyrst Judy Collins en síðan setti Cohen lagið á eigin plötu, Songs of Leonard Cohen, árið 1967. Önnur lög sem ég þekkti með Cohen voru Dance to the End of Love og First we Take Manhattan. Lagið Hallelujah vakti enga sérstaka athygli mína fyrr en að nokkrir vinnufélagar í Selásskóla í Reykjavík ákváðu að stofna hljómsveit til að spila vinalög undir söng nemenda á vinadögum í skólanum. Það vill svo til að það er til texti við lagið Hallelujah sem Unnur Halldórsdóttir samdi og fjallar um vináttuna. Það ásamt nokkrum öðrum vinalögum spiluðum við síðan undir söng nemenda skólans í mörg ár. Svo skemmtilega vill til að ég fann eina upptöku af þessu spileríi. https://vimeo.com/53948103 Lagið Hallelujah byrjar eftir 4,44 mínútur.
Mig hefur alltaf langað til að öðlast færni í að útsetja lög fyrir plokkaðan gítar. Til að öðlast færnina þarf maður víst að iðka íþróttina. Þess vegna fór ég á stúfana og ætlaði að finna lag til að útsetja. Var búinn að ákveða að setja saman útsetningu á laginu Fire and Rain með James Taylor en af einhverjum ástæðum var ég alveg óforvandis byrjaður að útsetja Hallelujah. Útsetningin er að sjálfsögðu sáraeinföld enda ræð ég ekkert við neitt annað. Venjulega hef ég lagið í G dúr enda ræð ég þá við að raula með. Hér má finna tilraun mína til að spila eigin útsetningu. Mig hefur alltaf langað til að öðlast færni í að útsetja lög fyrir plokkaðan gítar.
コメント